föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Yfirbyggð þurrkví í Njarðvík

Guðjón Guðmundsson
28. desember 2020 kl. 09:00

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. Mynd/gugu

Stórhuga áform eru uppi í Njarðvík um yfirbyggða þurrkví og klasasamstarf skipaþjónustufyrirtækja á fyrirhugaðri landfyllingu við Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem gæti sinnt viðgerðum á stærstu skipum íslenska flotans sem og erlendum skipum.

Áformin hafa verið uppi á borðum í nokkur ár og verði þau að veruleika gætu orðið til 120 störf á Suðurnesjum og 250-350 bein og óbein störf. Um leið yrði hægt að bjóða upp á nýja aðstöðu fyrir skip Landhelgisgæslu Íslands.

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, fór í gegnum áformin með Fiskifréttum.

Þrír aðilar standa sameiginlega að verkefninu, þ.e. Skipasmíðastöð Njarðvíkur, Reykjaneshöfn og Reykjanesbær. Forsenda alls þessa er gerð skjólvarnagarðs, dýpkunarframkvæmdir í Njarðvíkurhöfn og landfylling við núverandi athafnasvæði Skipasmíðastöðvarinnar.

Samtal er milli Skipasmíðastöðvarinnar, Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar ásamt ríkisvaldinu um aðkomu allra að málinu. Kostnað við flotkvína sjálfa og húsið utan um hana hyggst Skipasmíðastöð Njarðvíkur sjálf standa straum af og er það verkefni eitt og sér metið á um einn og hálfan til tvo milljarða króna.

Sá hluti er snýr að hinu opinbera er þegar kominn í farveg. Reykjanesbær, Skipasmíðastöðin og Reykjaneshöfn hafa gert með sér viljayfirlýsingu um framgang verkefnisins. Þá eru hafnarframkvæmdir í Njarðvík ein þeirra framkvæmda sem nefnt er í fjármálaáætlun ríkisins að þurfi að fjármagna.

Smíðað í Tyrklandi

Hús Skipasmíðastöðar Njarðvíkur er eitt af kennileitunum þegar ekið er inn til Njarðvíkur þar sem það rís hátt við höfnina. Áformin gera ráð fyrir enn stærra húsi sem myndi rúma stærstu skipin í íslenska flotanum. Miðað við núverandi aðstæður kæmust þessi skip ekki inn innsiglinguna. Það kallar á dýpkunarframkvæmdir í innsiglingunni og í höfninni sjálfri. Unnið er að kostnaðarmati á þessum þætti en framkvæmdaaðili yrði Reykjaneshöfn.

Tillagan sem fyrirtækið hefur unnið og mótað í þaula snýr að bættri aðstöðu í Njarðvíkurhöfn sem gæti meðal annars leitt til þess að unnt yrði að tryggja skipum Landhelgisgæslunnar viðunandi aðstöðu til framtíðar, skapa tækifæri fyrir mörg fyrirtæki til myndunar skipaþjónustuklasa sem getur umbylt aðstöðu til þjónustu við íslenskan og erlendan skipaflota sem gæti leitt af sér fjöldamörg störf.

Þráinn greindi frá því að fyrirtækið hefur fengið tilboð í smíði kvíar og húseininga frá Tyrklandi sem yrði flutt sjóleiðina til Íslands í tvennu lagi. Húsið verður úr steinsteyptum einingum; 135 metra langt, um 40 metrar á breidd og 33 metrar á hæð frá gólfi upp í mæni. Það verður lítið eitt hærra, séð utanfrá,  en núverandi hús en gólfplatan verður 11 metrum neðar. Lofthæðin verður því um 15 metrum hærri en í gamla húsinu sem opnar fyrir upptöku stórra skipa. Þegar skipum hefur verið siglt inn í húsið verður sjónum dælt út úr því með stórvirkum dælum. Dælurnar verða fjórar og það tekur þær um tvær klukkustundir að dæla öllu þessu magni af sjó út úr húsinu.

Tekin hafa verið jarðvegssýni þar sem kvíin á að rísa allt niður á 20 metra dýpi og voru niðurstöðurnar mjög jákvæðar.

150 milljónum á skip

„Með þessu væri hægt að taka undir þak öll stærstu fiskiskipin í íslenska flotanum. Þá erum við að tala um skip eins og nýju Samherjaskipin; nýja Vilhelm Þorsteinsson og Sólbergið, svo dæmi séu tekin,“ segir Þráinn.

Slippurinn á Akureyri getur tekið svo stór skip í kví en hún er ekki yfirbyggð eins og áformin eru í Njarðvík.

„Að vera með yfirbyggða kví breytir því að við getum unnið öll verk óháð veðri. Þá erum við að tala um framkvæmdir eins og sandblástur og málun, brúarskipti og þess vegna vélarskipti. Framkvæmdir af þessu tagi þýðir að það þarf að opna skipin alveg ofan í kjöl og það er viðkvæmur búnaður í vélarrúminu sem þarf að verja fyrir veðri og vindum. Verkþættirnir ganga líka mun hraðar í yfirbyggðri kví því veðrið hefur engin áhrif og sömuleiðis vegna þess að ekki þarf að ganga frá öllu í lok hvers vinnudags.“

Þráinn segir íslensk útgerðarfélög hafa sýnt þessum áformum mikinn áhuga og fylgist grannt með framvindu málsins. Stærri viðgerðum og breytingum á íslenskum skipum hefur að mestum hluta verið sinnt erlendis. Svo verður áfram.

Hann segir að stefnt verði að því að sinna verkefnum sem að kostnaðarumfangi verði allt upp í kringum 150 milljónir króna. Stærri verk verði áfram framkvæmd erlendis.

„Ástæðan er sú að þar er vinnuaflið ódýrara og hagstæðara útgerðunum að fara í stærri viðgerðir.  Það kostar útgerðirnar auðvitað talsverða fjármuni og tíma að sigla skipunum út til viðgerða. Því fylgir umtalsverður kostnaður, til að mynda ferðakostnaður vegna áhafna og íslenskra sérfræðinga sem þurfa að vera á staðnum sem fulltrúar umboðsaðila búnaðar í skipunum. Margt af búnaði íslenskra skipa er af íslenskum uppruna. Íslensk fyrirtæki eru ennfremur þjónustuaðilar fyrir erlenda framleiðendur og nefni ég þá sem dæmi fyrirtækið Vélar og skip ehf. sem er þjónustuaðili fyrir vélarframleiðandann Wartsila en um 70% af öllum stórum skipum í þessum heimshluta eru með vélar frá Wartsila. Vélar og skip þjónusta því allt Norður-Atlantshafið; Kanada, Grænland, Ísland, Noreg, Pólland og fleiri lönd.“

Frátafir dýrari en framkvæmdir

Einn af stóru kostnaðarþáttunum þegar framkvæma þarf stórar endurbætur eða viðgerðir á skipum eru tafir frá veiðum sem í mörgum tilfellum getur hlaupið á stærri upphæðum en sjálfur framkvæmdakostnaðurinn. Þráinn segir að með því að stefna saman ólíkum fyrirtækjum á sviði skipaþjónustu á einn stað sé stefnt að því að það náist upp viðlíka framkvæmahraði hérlendis og tíðkast erlendis.

„Við ætlum okkur ekki að sitja einir að öllum verkþáttunum heldur verða með okkur öflug þjónustufyrirtæki á staðnum og hugmyndafræðin að baki landfyllingunni er sú að skapa aðstöðu fyrir fyrirtæki í innbyrðis ólíkri skipaþjónustu. Sérhæfingin á þessu sviði er svo mikil að það er ekki á færi eins fyrirtækis að vera í öllu ef þjónustan á að vera í lagi,“ segir Þráinn.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur mun sem fyrr sinna smáviðgerðum af ýmsum toga, öxuldrætti, botnhreinsun og botnmálningu, hreinsun tanka og svo framvegis.

„Þetta eru verkþættir sem við höfum þá gert tilboð í og vitum hve langan tíma tekur að framkvæma. En nær undantekningarlaust þegar skip eru tekin í slipp bætast við fleiri verkþættir. Mjög oft er hægt að margfalda upphaflegt tilboðsverð með pí, það er að segja 3,14. Þetta er tvö- til þreföldun á kostnaði sem skýrist af því að verkið er tvö- til þrefalt umfangsmeira en upphaflega var lagt upp með. Samt er yfirleitt krafist af verkkaupa að staðið sé við verklok miðað við upphaflega verklýsingu. Þess vegna ætlum við að fá fyrirtæki með okkur í samstarf þannig að þótt verkið stækki lengist framkvæmdatíminn ekki. Með þessu móti getur stærsti kostnaðarliður útgerðanna lækkað til mikilla muna sem er frátafir frá veiðum,“ segir Þráinn.

Hlutafjárútboð og lántaka

Gangi áformin eftir ætlar Skipasmíðastöðin sér að bjóða þjónustu sína á erlendum mörkuðum. Þráinn segir mikla þörf fyrir þjónustu af þessu tagi jafnt í Kanada og Grænlandi. Hann segir að menn vonist til að þurrkvíin verði komin til landsins eftir eitt og hálft ár. Nú er stefnt að því að kaupa mannvirkið sem er steinsteypt fullsmíðað í Tyrklandi. Það yrði flutt hingað í tveimur hlutum sjóleiðina til Íslands. Það vegur nær 10.000 tonnum. Kostnaður Skipasmíðastöðvarinnar við mannvirkið og frágang þess er á bilinu 1,5-2 milljarðar króna. Verkfræðistofan Verkís vinnur að gerð hönnunarforsendna fyrir mannvirkinu með tilliti til reglna Mannvirkjastofnunar.

„Það er unnið að fjármögnunarmálum þessa dagana af krafti. Stjórn fyrirtækisins tók þá ákvörðun síðastliðið sumar að unnið yrði að framgangi þessa máls."

Að sögn Halldórs Karls Hermannssonar hafnarstjóra Reykjaneshafnar er kostnaður Reykjaneshafnar, af dýpkun svæðis og gerð skjólgarðs áætlað tæplega 1 milljarður kr. og kostnaður Reykjanesbæjar við landfyllingu og undirbúning lóðar rúmar 200 milljónir kr.

Jafnframt munu þessar framkvæmdir skapa önnur tækifæri til uppbyggingar, að sögn Halldórs Karls. T.d. skapast færi á nýjum viðlegukant innan við skjólgarðinn. Halldór bendir á að ein af hugmyndum því tengdu er að skapa skipastól Landhelgisgæslu Íslands þar aðstöðu til framtíðar og hefur þeirri hugmynd verið komið á framfæri við forsvarsmenn Gæslunnar. Aðrir möguleikar eru einnig til skoðunar en fyrir liggur að hafnaraðstaðan í Njarðvíkurhöfn mun batna til mikilla muna og í því felast tækifæri.

Umfjöllunin birtist fyrst í Tímariti Fiskifrétta 19. nóvember sl.