sunnudagur, 24. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýsa og gullkarfi til vandræða

Guðjón Guðmundsson
7. október 2021 kl. 15:00

Ekki verður annað sagt en að Tómas Þorvaldsson GK er glæsilegt skip. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Frystitogarar gera það gott á Halamiðum.

„Þær byrjuðu frekar snemma á kvótaárinu brælurnar. En við erum komnir hingað á Halann og svo stefnir strax í aðra brælu og við leitum sennilega vars inni á Ísafjarðardjúpi meðan þetta gengur yfir,” segir Bergþór Gunnlaugsson, skipstjóri á frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni GK.

Tómas Þorvaldsson var áður Sissimiut og Þorbjörn hf. í Grindavík fékk hann til sín seinni hluta árs 2019. Bergþór, sem áður var með Gnúp GK, segir hann hörkugott skip. Túrinn hófst að þessu sinni  í brælu 24. september og eini staðurinn sem þá var hægt að athafna sig eitthvað að ráði var fyrir austan. Þar reyndu menn fyrir sér með tveimur trollum. Þokkalegasti afli fékkst þar lengst af, og stór og vel haldinn þorskur sem greinilega hafði náð að éta sig upp af síldinni sem þarna er. Aðeins fékkst líka af ufsa. En þegar fréttist af góðri veiði út af Vestfjörðum var keyrt þangað á fullu gasi enda langt stím. Þangað var Tómas Þorvaldsson GK mættur í byrjun vikunnar og bættist þar í hóp annarra íslenskra aflaskipa eins og Vigra RE, Blængs NK og fleiri.

Einn og einn í frí

Tvær áhafnir eru á Tómasi Þorvaldssyni. Túrinn stendur fram til 19. október. Þá tekur við um mánaðarlangt frí hjá áhöfninni og Sigurður Jónsson skipstjóri og hans gengi tekur við.

„Það er búið að vera ágætis fiskirí hérna á Halanum, átta og upp í fimmtán tonn í holi. Þorskurinn er hérna dýpra en svo er bland hérna grynnra; ufsi, ýsa, þorskur og karfi. Það er búinn að vera fínn fiskur hérna hjá skipunum alveg frá Víkurál og norður fyrir Hala, tonn og upp í tvö tonn á togtímann," segir Bergþór.

  • Bergþór Gunnlaugsson, skipstjóri á Tómasi Þorvaldssyni. Mynd/Þorgeir Baldursson

Þeir á Tómasi Þorvaldssyni eru á dálítið grynnri slóð þar sem líklegra er að ná ufsa með þorskinum. Bergþór segir að gangi það ekki eftir verði haldið dýpra og farið í hreinan þorsk. Það hafi verið fín blanda í aflanum frá því þeir komu á Halann.

Ufsinn er brellinn

„Það er yfirleitt ekki á vísan að róa með ufsaveiði. Það er greinilega ekki jafnmikið af honum og hefur verið undanfarin ár. Það má segja um ufsann að veiðin á honum er annað hvort í ökkla eða eyra. Það þarf líka að hafa fyrir honum. Maður getur fengið eitt ágætt hol og svo lítið eða ekkert í næsta. En það þarf að veiða þetta allt hvort sem verðið er hátt eða lágt. Menn reyna auðvitað að sækja heildarkvótann. En ufsinn er brellinn. Þetta er flökkufiskur. Hann er vissulega hjarðdýr en það er líka svo mikil ferð á honum alltaf hreint. Verð á ufsa hefur líka verið stígandi, jafnt á Evrópu- og Bandaríkjamarkaði. Það hefur tekið mikinn kipp eins og raunar allt fiskverð sem hefur hækkað talsvert undanfarna mánuði. Það má örugglega rekja til minnkandi kvóta, jafnt hér á Íslandi og Noregi og annars staðar. Svo hefur hrávöruverð hækkað líka um allan heim út af heimsfaraldrinum sama hvað varan heitir," segir Bergþór.

Hann kveðst dálítið undrandi yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi komandi loðnuvertíð. Honum finnst fyrirhugaður kvóti alltof stór miðað við hvað menn verði varir við á veiðislóð. Þá sé ítrekaður  vandræðagangur út af mikilli ýsugegnd út um allan sjó. Sama eigi við um gullkarfa. Þessar tegundir séu alls staðar þar sem menn eru að veiðum og erfitt sé að forðast þær sem meðafla. Kvótaárið sé nýbyrjað og útlitið sé alls ekki gott hvað varðar þessar tegundir þegar líður á árið komi ekki til kvótaaukningar. „Það verður að vera hægt að vinna úti á miðunum og menn mættu gjarnan hafa það í huga," segir Bergþór.